17 сентября 2007 г.

Dýrð sé Guði fyrir alla hluti!

Kondak 1

Ævarandi Konungur aldanna, sem í hægri hönd Þinni heldur um alla vegi mannsins í krafti hjálpræðis Þíns! Við þökkum Þér allar velgjörðir Þínar, þekktar sem leyndar, fyrir líf okkar á jörðu og himneska gleði komandi Ríkis Þíns. Augsýn þú gæsku Þína, framvegis sem hingað til, okkur sem syngjum:
Dýrð sé Þér,Guð, um aldir.

Ikos 1

Veikburða og hjálparvana barn fæddist ég í heiminn, en Engill Þinn breiddi út bjarta vængi sína til verndar vöggu minni. Frá þeirri stund lýsir kærleikur Þinn á öllum vegum mínum og leiðir mig með undursamlegum hætti til hins eilífa ljóss. Ég lofa ríkulegar náðargjafir Þínar sem mér hafa auðsýndar verið frá fyrsta degi og allt til þessa.
Ég þakka og ákalla með öllum þeim sem Þig þekkja.
Dýrð sé Þér, sem hefur kallað mig til lífsins.
Dýrð sé Þér, sem hefur leitt í ljós fegurð alheimsins.
Dýrð sé Þér, sem hefur lokið upp fyrir mér himni og jörð sem hinni miklu bók viskunnar.
Dýrð sé Þinni eilífð í stundlegum heimi.
Dýrð sé Þér fyrir leynd og augljós náðarverk Þín.
Dýrð sé Þér fyrir sérhvert andvarp í brjósti mínu.
Dýrð sé Þér fyrir sérhvert skref á lífsbrautinni, fyrir hverja gleðistund
Dýrð sé Þér,Guð, um aldir.

© Árni Bergmann - Translation