5 января 2007 г.

Jólum fagnað í Friðrikskapellu um helgina

Á meðan síðasti jólasveinninn heldur aftur til fjalla og landsmenn búa sig undir að takast á við lífið og skuldirnar á ný að hátíðum loknum eru aðrir í óða önn að undirbúa jólahald. Þeir sem tilheyra rétttrúnaðarkirkjunni búa svo vel að eiga enn jólin í vændum, og verða þau haldin hátíðleg sunnudaginn 7. janúar.

Ástæðan fyrir þessu misræmi er sú að árið 1582 tók nýtt tímatal sem kennt er við Gregoríus páfa gildi í löndum kaþólskunnar. Löndin austan við páfagarð héldu þó enn fast í gamla júlíanska tímatalið, og var hið nýja tímatal ekki tekið upp í Rússlandi fyrr en eftir byltinguna 1917. Rússneska kirkjan var hvorki ánægð með þetta né annað í stefnu byltingarmanna, og miðar því hátíðir sínar enn við tímatalið gamla.

Í tilefni jóla verða tvær guðsþjónustur haldnar þann 6. janúar í Friðrikskapellunni við Perluna, sú fyrri klukkan 10 og sú síðari klukkan 23. Mun sú seinni standa fram yfir miðnætti og þar með ljúka á jóladag. Búist er við rúmlega hundrað manns af ýmsu þjóðerni.

Prestur Rétttrúnaðarkirkjunnar á Íslandi heitir Timur Zolotuskiy. Hann er fyrsti rétttrúnaðarpresturinn á Íslandi í fullu starfi og hefur verið hér í um eitt og hálft ár. Samkvæmt síðustu tölum Hagstofunnar tilheyrðu 144 manns rétttrúnaðarkirkjunni á Íslandi, en hún heyrir undir patríarkann í Moskvu. "Guðsþjónustur okkar sækja Rússar en einnig fólk frá Póllandi, Búlgaríu, Georgíu, Úkraínu, Slóvakíu og Eystrasaltslöndunum, og jafnvel orþódoxtrúarfólk frá Bandaríkjunum hefur komið við sé það statt hérlendis í leyfi," segir Timur. "Serbarnir heyra undir patríarkann í Belgrad, og prestur þeirra í Osló kemur hingað tvisvar á ári, á Pálmasunnudag og þann 8. september þegar hátíð fæðingar Maríu Guðsmóður er haldinn. En þar sem þeir hafa ekki fastan prest hér sækja þeir guðsþjónustur patríarkatsins í Moskvu inn á milli."

Timur hefur aðsetur á Sólvallagötu 10, þar sem hann heldur guðsþjónustur á sunnudögum klukkan 10, en hann er um þessar mundir að leita að lóð undir rétttrúnaðarkirkju. Söfnuðurinn var fyrst skráður hérlendis þann 12. desember árið 2001 og fagnaði því fimm ára afmæli í fyrra. Heimasíða hennar er http://orthodox-iceland.blogspot.com/, en er einungis á rússnesku.

valurg@frettabladid.is