29 августа 1995 г.

Skírt á rússneska vísu

Þriðjudaginn 29. ágúst, 1995 - Innlendar fréttir

LÍTIL stúlka hlaut rússneska skírn í Bessastaðakirkju sl. laugardag. Pítírím erkibiskup, einn af æðstu mönnum rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar, kom hingað til lands gagngert til að skíra vikugamla frænku sína, dóttur Jóns Ólafssonar og Xeníu Ólafsson. Var litlu stúlkunni gefið nafnið Anastasía.

Pítírím dvaldi hér í tæpa viku og hitti ýmsa forystumenn í íslensku þjóð- og trúarlífi. Hann hélt rússneska litúrgíu í Háteigskirkju á laugardagsmorgun og skírði svo frænku sína síðdegis. Athöfnin var í Bessastaðakirkju að viðstöddum ættingjum og vinum. Auk þess voru forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, og sendiherra Rússlands, Júrí Resetov, viðstödd athöfnina.

Í upphafi útskýrði erkibiskupinn fyrir viðstöddum hvernig rússnesk skírn færi fram og túlkaði rússneski sendiherrann. Skírn að rússneskum sið er að sumu leyti frábrugðin íslensk- lúterskri skírn. Barnið fær smurningu, klippt er hár af höfði þess og það er fært úr hverri spjör og því díft þrisvar niður í hið vígða vatn í skírnarfontinum.

Að lokinni skírninni söng Garðar Cortes Skírnarsálm Anastasíu, eftir Þorstein Gylfason, við skírnarsálmslag eftir 19. aldar tónskáldið Dmitríj Bortníanskíj. Sálminn orti Þorsteinn í tilefni dagsins.

Vigdís Finnbogadóttir bauð kirkjugestum til Bessastaðastofu að athöfn lokinni.

ALLRA augu beindust að Anastasíu litlu sem hér sést í öruggum höndum langömmubróður síns, Pítíríms erkibiskups. Litla stúlkan horfist í augu við móður sína, en henni á hægri hönd er föðuramman, Vilborg Sigurðardóttir.

MÓÐURLEG umhyggja skín úr augum Xeníu en skírnarbarnið hefur komið auga á guðmóður sína og móðursystur, Maríu Shúkúrovu. Stoltur faðirinn heldur á eldri dóttur þeirra hjóna, Alexöndru, sem er tæplega tveggja ára gömul.

Morgunblaðið/Einar Falur